141013 – Toulouse

Nú er klukkan 19.08 þann 15. október og við erum að keyra. Gærdagurinn var fullkominn endir á frábærri ferð, síðustu tónleikarnir okkar, númer 37 í röðinni, smá partý og síðan kveðjustund.

Tónleikastaðurinn var frábær, ekkert minna en frábær. Nóg pláss um allt, tæki og tól í fyrsta klassa, fólkið almennilegt, sturturnar góðar (en reyndar ekki fyrir fullorðið fólk að standa undir), maturinn alveg ágætur, sviðið risastórt og tónleikasalurinn sömuleiðis. Ég vaknaði þegar rútan nam staðar fyrir utan og drattaðist fram úr. Pálmatré og sundlaug, sólskáli og ég veit ekki hvað og hvað, mér leið eins og ég væri staddur á viðhressingarhæli frekar en tónleikastað. Það hefði svo sem verið viðeigandi eftir lífernið undanfarið. Allir tóku það rólega í dag og nutu samverunnar í þessu notalega umhverfi. Mitt fyrsta verk var að athuga hvort ég ætti póst.

DSCF7182Robert er líkamsræktarsinnaður maður og hefur sérstakt dálæti á Crossfit. Snemma túrs áttaði hann sig á því að við værum hvorki meira né minna en samlandar heimsmeistara í greininni og var þá auðvitað að tala um Anníe Mist sem vann titilinn 2011 og 2012. Honum þykir mikið til hennar koma og lofaði hana og afrekin í hástert. Ég þekki Anníe ekki persónulega en við eigum fjölmarga sameiginlega vini og gegnum klíkuna (takk Andrea) gat ég reddað áritun frá henni stílaða á Robert. Eftir svolítið stapp við að koma plagginu til okkar endaði það í pósti og var stílað á síðasta tónleikastaðinn, þar sem við vorum í gær, og sem betur fer hafði bréfið skilað sér. Robert var grunlaus, en það voru tröllin ekki, og því var svolítill mannsöfnuður þegar við afhentum herlegheitin og gátum þannig þakkað Robert formlega fyrir samveruna. Þetta var nú ekkert mjög formlegt samt. Og þetta smellhitti í mark hjá okkur og okkar stórkostlegi bílstjóri varð eins og barn á jólunum, brosti og hló og hoppaði og þakkaði þráfaldlega fyrir sig. Anníe, ef þú lest þetta: Takk fyrir viðvikið, það er gaman að gleðja gott fólk.

Við fengum vinameðferð í dag þar sem tæknimenn Finntroll sáu um bæði ljós og hljóð. Mikko og Otto eru miklir fagmenn. Þetta hefur verið rætt annað slagið á túrnum, að þeir vildu taka eins og eitt gigg með Skálmöld, og okkur til gríðarlegrar gleði gerðist það í gær. Við spiluðum fyrirtakstónleika frammi fyrir fullri höll, Finntroll-menn stóðu þarna allir sem einn, brostu, klöppuðu og vöknaði um augu að eigin sögn og það er ekki laust við að maður hafi sjálfur aðeins komist við á stundum. Eftir síðasta tóninn sótti að mér þessi tilfinning sem fylgir þegar maður klárar löng og erfið verkefni. Eins feginn og við erum að nú sé þessi ferð sé á enda eigum við eftir að sakna margs og þegar þetta kemur saman í hálfgötóttu heilabúinu verður maður óskaplega blár. Tregafullur léttir, stolt og gleði.

DSCF7225Að þessu sögðu einkenndist dagurinn af fíflaskap eins og verða vill í lokasýningapartýjum. Þegar við stigum á svið var til að mynda búið að þekja helstu mónitora og græjur með síðum úr grófum, og heldur óhefðbundnum, klámritum. „Gamla klámtrikkið“ eins og ég kýs að kalla það. Eftir því sem á kvöldið leið dunduðu menn sér við álíka fíflaskap, einhverjir beruðu kynfæri sín hliðarsviðs (uss strákar, þið eruð fjölskyldumenn!), þeir sem spila með In Ear (mónitorakerfi sem stungið er í eyrun líkt og heddfónum) fengu allskonar skilaboð og truflandi hljóð til sín frá tækniliðinu á meðan þeir spiluðu og svona er hægt að telja áfram. Það var galsi í öllum, svo mikið er víst.

Svo máluðum við okkur aftur í Finntroll­-röndum og þrömmuðum á svið til að syngja með þeim í Nattfödd. Það tókst jafnvel betur en í fyrra skiptið, allir brostu út að eyrum og tröllin mest. Við hoppuðum svo af sviðinu á meðan Finntroll kláruðu síðasta lagið. Síðan var komið að kveðjustund.

Við fengum ekki langan tíma því báðar rúturnar áttu langa ferð fyrir höndum. Við reyndum nú samt að draga þetta á langinn eins og við gátum, skáluðum, rifjuðum upp sögur af túrnum, klöppuðum axlir og bök, höfðum hátt og hlógum. Menn skiptust á gjöfum, geisladiskar og bolir flugu í allar áttir og þá var tekin hópmynd þarna úti á planinu. Þegar kveðjustundin nálgaðist svo loksins meyrnuðu ansi margir og felldu jafnvel tár, bjarnarknús, falleg orð og loforð um endurfundi gerðu þetta allt mjög þrungið. Síðan hópaðist hersingin upp í stóru rútuna og fór. Við sátum eftir einir, hálfslegnir. Við eyddum svo ágætis tíma í að tala vel um nýfarna samferðarmenn okkar og ekki síður um okkur sjálfa. Síðan keyrðum við af stað.

DSCF7187Kvöldið var rólegt, ég fór fljótlega í koju en sumir tórðu lengur við þungarokk. Menn settu örlítið í flöskurnar, Böbbi 600 ml. og Gunni 400. Sennilega er útséð um fyrsta sætið, en baráttan um silfrið er æsispennandi, nú þegar við keyrum síðasta legginn:

  • Baldur – 2.600
  • Björgvin – 4.800
  • Gunnar – 4.900
  • Jón Geir – 6.500
  • Snæbjörn – 0
  • Þráinn – X

Robert keyrir eins og vélmenni og ætlar að ná langleiðina til Frankfurt þaðan sem við fljúgum upp úr hádegi á morgun. Heildarvegalengdin frá Toulouse er að ég held hátt í 1.000 kílómetrar og mér finnst við hafa verið keyrandi endalaust bæði í vöku og svefni.

Þetta er búið, við komum heim á morgun. Það er ótrúlegt.

DSCF7222

131013 – Madrid

Næstsíðasta giggið og eitt ómerkilegasta venjúið á túrnum. Ég rumskaði við að Robert var að hringsóla og leita að bílastæði sem tókst ekki og svo var ég rekinn úr koju þar sem við höfðum tekið okkur stöðu, hentum öllu nauðsynlegu út og svo keyrði Robert í burtu. Nú er klukkan 0.42, við hann við erum rétt lagðir af stað og það var hreinlega undarlegt að vera viðskila við Robert og Stormtrúpperinn svona lengi. Hvernig verður þetta þegar við komum heim?

DSCF7157Húsið var hreinlega of lítið. Eina herbergið sem hægt var að hafast við í var tónleikasalurinn sjálfur, þar gerðist allt í dag, samskipti, rót, át og svo auðvitað sándtékk og tónleikar. Við afréðum að skoða Madrid, allt eins til að flýja staðinn, og röltum hálfstefnulaust í einhverja átt. Jón Geir hafði einhver plön um að skoða grasagarð og virtist rata fullvel, en þegar þangað kom kom í ljós að heimamenn vildu peninga í skiptum fyrir aðgang. Ég hef oft farið í heyskap og er ekki maður sem borgar fyrir að sjá plöntur. Reyndar vorum við flestir sammála. Því strunsuðum við um hettupeysuklæddir, og fundum að lokum alveg ágætisveitingastað þar sem við keyptum mat, og í sér í lagi drykk. Auðvitað er þetta orðin margtuggin klisja í þessu ferðabloggi, en að geta setið allir sex í framandi borg í sextánda landinu, eftir tæplega 40 daga ferð, sagt sögur, hlegið og gert grín, verður ekki metið til fjár. Þarna eyddum við eins miklum tíma og við mögulega gátum og enginn hafði sérstaklega áhuga á að standa upp þegar tími var til kominn. Okkur leiðist aldrei, eigum aldrei rifrildi sem ekki er hægt að leysa og veitum hver öðrum félagsskap á hverjum einasta dagi og já, ræktum vinskapinn – eins væmið og það kann nú að hljóma. Og auðvitað besta hljómsveit í heimi.

Við röltum svo til baka niður á venjú, buðum Týsverja velkomna aftur til starfa og kipptum okkur svo aftur niður á jörðina eftir stjörnustæla gærdagsins. Svei mér þá ef það hentar okkur ekki bara betur. Samu mixaði okkur enn á ný, hann er farinn að rífa kjaft og skipa okkur fyrir sem er gott, það þýðir að honum er ekki sama um verkefnið. Hann getur reyndar ekki séð af tíma sínum á morgun, sem er síðasta gigg túrsins, því hann þarf að fara til tannlæknis. Hálfkvalinn og voðalegur Finni er verri en venjulegur Finni og því tökum við þessu fagnandi, sérstaklega vegna þess að Mikko, hljóðmaður Finntroll, ætlar að taka giggið að sér. Það eitt og sér væri ekki minna en upphefð, en til viðbótar ætlar Otto, þeirra sérlegi ljósamaður, að lýsa sjóið okkar. Okkur gafst ekki kostur á því í dag, vegna óskaplega slakra aðstæðna, að syngja aftur með Finntroll en Jamie er ákveðinn í að láta það gerast aftur á morgun í Toulouse. Þeir sem til þekkja segja morgundaginn verða frábæran, þetta á víst að vera einn af allra bestu tónleikastöðum Evrópu. Það stefnir svo sannarlega í stórbrotinn lokadag á þessari frábæru ferð.

DSCF7129Að áti og sándtékki loknu brugðum við okkur á kaffihús gegnt tónleikastaðnu þar sem okkar beið góður gestur. Vinur okkar, og Húsvíkingurinn, Yngvi Leifsson (kenndur við lopa) var þar kominn eftir þriggja tíma rútuferð frá Salamanca þar sem hann dvelur nú og skrifar doktorsritgerð. Hann hafði með sér vinkonu sína frá Mexíkó sem hann kallaði Soffíu frænku. Við fengum okkur tvo og skunduðum upp á hinn miður góða tónleikastað til að spila.

Giggið var hinsvegar alveg stórgott. Við höfum spilað fyrir sjálfsagt 400 manns sem vissu alveg hvernig átti að skemmta sér. Við spiluðum lag sem við höfum ekki spilað síðan á upphafsdögum ferðarinnar, Upprisu, og það var gaman. Á morgun spilum við samt það prógram sem við höfum spilað oftast hingað til og virkar: Fenrisúlfur, Gleipnir, Narfi, Miðgarðsormur og Kvaðning. Við höfum stundum skipt út Úlfi fyrir Árás og sitt sýnist hverjum, það er hvorki betra né verra.

Robert lagði svo að klukkan tólf og við hentum öllu um borð, drukkum eins hratt og við gátum, spjölluðum við málhalta Madridar-búa og hoppuðum svo um borð. Nú sitjum við þrír auk Roberts, ég Baldur og Gunni, og skiptumst á að velja lag til að hlusta á. Við drekkum og brosum og höfum gaman, Þrábi er farinn að sofa fyrir svolitlu síðan en Jón Geir bara rétt í þessu. Böbbi var samt fyrstur í koju og hafði svo sannarlega unnið fyrir því. Það gleður mig. Við eigum langa ferð fyrir höndum, 706 kílómetrar til Toulouse sem ég hef ekki hugmynd um hversu langan tíma tekur með öllu.

36 gigg búin á 38 dögum og eitt eftir. Það er ótrúlegt. Auðvitað hlökkum við allir til að koma heim en ég myndi treysta þessu föruneyti til að halda út tífalt á við þetta.

DSCF7027Ég á einn Opal-pela í fórum mínum sem ég er búinn að hafa til fóta síðan í London. Það er eins gott að það verði partý á morgun.

Uppfært kl 7.09:

Baldur hefur skilað af sér 900 ml. í nótt, Björgvin 800, Gunnar 1.350 og Jón Geir 1.400.

  • Baldur – 2.600
  • Björgvin – 4.200
  • Gunnar – 4.500
  • Jón Geir – 6.500
  • Snæbjörn – 0
  • Þráinn – X

Þessi nótt varð lengri en gert var ráð fyrir. Sofa, meira seinna.

121013 – Barcelona

Þetta var einn besti dagur ever. Meistarasnilld er þetta.

Það má ekki opna sig, þá fer allt úr skorðum. Eins og ég lýsti því í mörgum orðum að ég fari seint að sofa og sé alltaf síðastur úr koju í síðasta bloggi þá var það ekki svoleiðis í dag. Ég vaknaði fyrstur, fyrir hádegi og allt, og sat með Robert þegar við keyrðum inn í borgina. Það var ljómandi, ég hef aldrei komið til Spánar áður og þetta var allt saman eitthvað svo mikið eins og í sjónvarpinu. Við mjökuðum okkur svo í átt til tónleikastaðarins, lögðum þar fyrir utan og hlóðum inn. Stóra rútan fékk reyndar ekki stæði og þurfti að leggja talsvert langt í burtu, en við fengum að vera, lagðir ólöglega sem skipti engu máli því í dag var víst einhver þjóðarfrídagur hér í landi. Eftir að hafa tekið skeytin innanhúss tókum við rölt.

DSCF7072Við sjö, Skálmöld og Robert, röltum niður á strönd þar sem Robert reif sig úr mestöllu, sullaði í sjónum og baðaði sig í sólinni. Við settumst undir hlíf og drukkum bjór og kaffi og sumir fengu sér í gogginn. Við höfðum ekki langan tíma og trítluðum því til baka í sándtékk. En ekki okkar sándtékk.

Við létum þennan Finntrollsöng verða að veruleika í dag, stilltum upp fimm aukamíkrófónum og æfðum í sándtékkinu. Og það var osom. Eins og frá sagði voru Týsmenn vant við látnir í dag við spilamennsku í Noregi og því vorum við færðir upp um eitt þrep í goggunarröðinni. Við fengum ekki bara 45 mínútna, í stað hálftíma, spilatíma heldur fengum við montmeðferðina tekna alla leið. Jamie og allt krúið kepptist við að þjónusta okkur, róta, skipuleggja, prenta út settlista og ég veit ekki hvað og hvað. Við brostum út í annað og reyndum að gera lítið úr, en í sannleika sagt var þetta ósköp gaman og þægilegt. Pant vera stærra band á næsta túr. Til að bæta við lænöppið var svo fengið eitt lókalband til að spila með okkur, hljómsveit að nafni Ravenblood og ég náði að sjá eins og tvö lög af settinu þeirra. Hljómveit sem hefði örugglega gert það þokkalega gott á einhverju undanúrslitakvöldi Músíktilrauna. Og svo gerðum við okkur klára.

Neinei, nú er ég kominn fram úr mér.

Milli tékks og giggs héldum við í annan göngutúr, án Roberts í þetta skiptið, til að skoða dómkirkjuna í Barcelona. Ég á eftir að gúggla nafnið á henni á morgun, en þetta er mikill óskapnaður. Ótrúlegt þrekvirki mannanna vissulega, en smekklaust með öllu og yfirþyrmandi. Það væri alheimshreinsun að því að slá trúarvopnin úr höndunum á þessum peningaplokkandi ógnarstofnunum, segja þeim að hætta þessum viðbjóði og skikka þá sem arkitekta. Kirkjur eru jú oft og tíðum flottar og fallegar, en þetta óhóf í nafni „guðlegra“ vera er ógeðslegt. Engu að síður skemmtileg upplifun, og bjórinn sem við tókum við rætur ferlíkisins var ljómandi.

Það hentar okkur betur að spila lengur og giggið í dag var sönnun þess. Þessir tónleikar voru frábærir, átta lög í stað fimm, og við upp á okkar allra besta. Samu var í svolitlum efa hvort hann myndi mixa giggið þar sem hann þurfti að setjast í trommustólinn hjá Finntroll korteri eftir að okkar giggi lauk, en snemma í dag kom hann að máli við Jón Geir og sagði á sinni mjög svo finnsku ensku:

–       I’m gonna do it. I don’t trust the local sound guys.

DSCF7086Og við það sat. Hann einfaldlega klæddi sig í tónleikagallann fyrir mixeríið og stóð pliktina. Ég er í senn montinn og hálfhrærður yfir því að hann hafi tekið að sér að sjá um hljóðið hjá okkur á þessum síðustu giggum, þetta er greiða- og vinsemi að öllu leyti og hjálpar okkur svo óskaplega. Við spiluðum fyrir mjög marga og slógum hvergi af. Og allir brostu hringinn, við sjálfir, tækniliðið, Jamie, gestir og gangandi. Einn lítill sigur enn, en svo stór í baráttunni.

Finntroll voru svo næstir, við fengum okkur eins og einn bjór og stálumst svo í málninguna þeirra. Þeir fara á svið með allskonar meiköpp í andlitinu, sem og latexeyru, en eitt af því sem hefur einkennt þá lengi er svört lína sem dregin er frá hársrótum og niður eftir andlitinu hægra megin. Meðan þeir spiluðu drógum við slíkar línur á okkur og biðum eftir uppklappinu. Og í miðju fyrra uppklappslagi þrömmuðum við á svið og sungum. Og það var geðveikt! Jamie horfði á og felldi tár, vinir okkar Finntrollsmenn brostu eins og leikskólabörn sem losna úr bandinu og við negldum okkar hluta. Djöfull var þetta gaman! Þetta var síðan stóra umræðuefnið fram að brottför, það er fullur vilji fyrir að endurtaka þetta á morgun og hinn, menn hafa hugmyndir að endurbótum og einhver barnslegur drifkraftur umlykur þetta allt. Og þessi magnaði vinskapur sem tengir okkur alla.

Já, á morgun og hinn. Nú eru bara tvö gigg eftir og túrinn næstum á enda. Við höfum eignast nýja vini og styrkt böndin við gamla, spilað eins vel úr okkar spilum og okkur hefur sýnst mögulegt og eflumst í þeirri trú okkar að við séum að gera eitthvað sem skiptir máli. Þessi dagur gerði mikið fyrir mig hvað þetta varðar. Nú þegar við erum búnir með 35 tónleika og eigum tvenna eftir er blóðþorstinn orðinn meiri en áður, við sjáum tækifæri opnast á alla vegu, brosum breiðar en áður og treystum enn frekar á hvern annan.

Klukkan er hálfþrjú í Stormtrúppernum, við erum búnir að keyra í um klukkutíma, Böbbi er í koju að hlusta á pönk, en þeir hinir horfa enn einu sinni á X-Files meðan ég pikka á tölvuna. Þetta eru fallegustu menn í heimi allir sem einn að mínu viti og þess óska ég að allir fái að tengjast fólki svona góðum böndum á lífsleiðinni. Það skiptir nefnilega ekki mestu máli hvað þú gerir, heldur með hverjum þú gerir það.

Áður en ég loka færslunni þarf að koma til skila þvagtölum sem virðast hafa farið framhjá mér í dag og í gær. Þær eru eftirfarandi: Böbbi: 600 ml., Böbbi 800 ml., Gunnar 450 ml., Jón Geir 600 ml. Staðan er því svona og ekki laust við að kapp sé hlaupið í menn á lokadropunum.

  • Baldur – 1.700
  • Björgvin – 3.500
  • Gunnar – 3.150
  • Jón Geir – 5.100
  • Snæbjörn – 0
  • Þráinn – X

Madrid á morgun og þangað 657 km. frá Barcelona samkvæmt leiðabók. Robert kemur okkur á leiðarenda líkt og síðustu fimm vikur.

DSCF7115

111013 – Istres

Æi, svona dagar eru skemmtilegir. Ég eyddi nokkrum korterum með Robert frammi við keyrsluna í nótt og man ekki alveg hvenær ég fór að sofa. Hann er maður sem auðvelt er að tala við, svo mikið er víst.

Ég vaknaði að venju á eftir hinum og leit fram úr efstu kojunni þar sem ég sef. Hinar kojurnar voru allar tómar og þá fór í gegnum huga mér sú hugsun að eins oft og ég hef séð Böbba skríða í sína koju þá hef ég aldrei séð hann brölta fram úr henni. Við erum bestu vinir í veröldinni ég og Björgvin en þessi staðreynd segir sennilega allt sem segja þarf um muninn á okkur tveimur.

DSCF7001Aðstæður í dag voru algerlega frábærar ef frá er talin staðsetning tónleikahússins. Þarna var nákvæmlega ekkert nálægt, ekki kaffihús, ekki bensínstöð, alls ekkert þéttbýli og eiginlega engin menning af nokkru taki. Ég sá reyndar nokkrar rottur og nokkrir töldu sig hafa séð snáka hér og þar. Þrátt fyrir vonlausa staðsetningu héldum við fimm í smá rölt, ég, Baldur, Gunni, Jón Geir og Robert. Við röltum stutt í samfloti við drekaflugur og fiðrildi og fundum þá hlið sem bannaði allan aðgang. Þar sem stórt rof var á girðingunni skriðum við þar í gegn og skoðuðum yfirgefna verksmiðju af einhverju tagi sem hefur ekki verið brúkuð í áratugi. Hálfbrotnir og ákrotaðir veggir í bland við fíkjutré, netlur af miságengu tagi og almennt rusl bjuggu til mjög heillandi umhverfi sem við áðum við um stund. Og svo röltum við bara til baka. Og þá fengum við mat.

Já, þessi tónleikastaður var einn af þeim allra glæsilegustu sem ég hef séð. Allar aðstæður voru stórkostlegar, tæki og tól, húsakynni og starfsfólk, viðmót og veigar. Við fengum mat í allan dag sem bragðaðist eins og matur og gaf manni kraft og orku, margréttað og flest sem hugurinn girntist. Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta en vona hreinlega að þetta festist í langtímaminninu því hér vil ég gjarnan koma aftur. Talandi um vin í eyðimörkinni.

Tímaplan dagsins reyndist svo fermur afslappað. Samu sá um hljóðið hjá okkur þriðja daginn í röð, lenti í einhverju örlitlu klandri í hljóðprufunni en leysti það með finnsku glotti og svolítið lengri tíma en áður. Tónleikasalurinn var mjög stór, sviðið sennilega það stærsta hingað til á túrnum og allt eitthvað svo frábært. Tónleikarnir byrjuðu síðan frekar seint og við fengum nægan tíma milli sándtékks og giggs. Sem hentaði einkar vel því við fengum gesti.

Bergþóra systir Gunna og Sigfús hennar ektamaður létu sjá sig hér um miðjan dag í dag og gerðu vægast sagt gott mót. Við buðum þeim að sjálfsögðu í rútu til að skoða húsakynnin og þá um leið rifu þau upp allskonar góðgæti, harðfisk, Brennivín, rauðvín og bjór og gáfu öllum með sér sem þau sáu. Íslenska gotteríið kom þónokkuð á óvart því þau eru búsett í Cannes og hljóta þau að hafa beint samband við Kölska eða aðra íslenska stjórnmálamenn. Þau eyddu síðan öllum deginum með okkur og voru rétt farin þegar rútan keyrði loks frá. Óskaplega gott fólk sem ég væri til í að kynnast miklu og mun betur.

DSCF7039Við spiluðum eina af okkar skemmtilegustu tónleikum í ferðinni í kvöld, það fullyrði ég auðveldlega. Eins og fyrr sagði voru aðstæður algerlega frábærar og ofan á það var pakkað hús, allir mættir til að skemmta sér og stemmarinn alger. Við spiluðum sama sett og í gær, örlítið breytt frá því sem við höfðum áður gert í ferðinni, Árás, Gleipni, Fenri, Orm og Kvaðningu. Sannfærandi og ótrúlega gaman.

Fyrir nokkrum dögum síðan kom upp sú hugmynd að við myndum syngja með Finntroll á eins og einu giggi, montradda eins og einn kór í einu lagi. Það er reyndar af nógu að taka því lögin þeirra eru mjög melódísk, en einhvernveginn lentu menn á laginu Nattfödd, eitt af þeirra frægari sem yfirleitt er fyrra lag í uppklappi. Gunni hefur verið að dunda sér við að búa til þriggja radda útsetningu fyrir millikafla lagsins og í dag rákum við endahútinn á þá útsetningu og æfðum. Eftir nokkur frjálsleg rennsli fluttum við svo fyrir þá sem heyra vildu af samferðamönnum okkar sem voru reyndar ekki margir en nógu margir til að fá samþykki fyrir því að gera þetta á morgun í Barcelona. Heri, forsprakki Týs heyrði þetta útundan sér, kom hlaupandi til Baldurs og spurði hvort við værum þá jafnvel til í að syngja með þeim á síðasta giggi túrsins, í Touluose á þriðjudaginn. Lagabúturinn sá hentar okkur einkar vel, er í tveimur röddum og á íslensku. Ætli við leggjum Skálmöldina ekki niður eftir túrinn og förum að gera út á bakraddir. Eftir því sem á kvöldið leið sungum við svo Nattfödd-bútinn oftar og fyrir fleiri og svo fór að lokum að Jamie, okkar stórkostlegi fararstjóri, krafðist þess að fá að syngja með. Gunni lét hann reyndar fara á hnén og krafði hann um að kalla sig Sensei til að af yrði en nú virðist stefna í að við förum sjö á svið og flytjum þennan litla lagstúf með Tröllunum. Það er brjálað að gera hjá karlakórsdeild Skálmaldar.

DSCF6974Barcelona á morgun og þangað eru áætlaðir 458 kílómetrar. Nú er klukkan 3.46 og Robert vaknaði mjög grömpí fyrir um klukkutíma síðan. Hann hresstist talsvert eftir harðfiskinn sem við gáfum honum og nú sitjum við allir og horfum á X-Files, allir nema Böbbi og Baldur sem eru farnir í koju. Giggið á morgun verður frábrugðið öðrum vegna þess að Týr spila ekki. Þeir taka flug til Osló í fyrramálið, spila á norsku festivali á morgun og því fáum við 45 mínútna slott í stað 30 mínútna eins og venjulega. Það í bland við tröllasönginn á eftir að gera þennan dag eftirminnilegan giska ég á. En nú, meira X-Files og rauðvín. Þrjú gigg eftir, 34 búin.

Jú eitt enn, ráð frá hæstvirtum Kapanen: Ef þú ætlar að borða baguette-brauð í Frakklandi skaltu aldrei borða miðjuna úr brauðinu heldur alltaf endastykkin. Og af hverju? Jú, eins og allir vita bera Frakkar umrædd brauð alltaf í handakrikanum og Frakkar eru aldrei nýbaðaðir.

Uppfært klukkan 4.07:

Jón skilaði 450 ml. Staðan er því þessi:

  • Baldur – 1.700
  • Björgvin – 2.100
  • Gunnar – 2.700
  • Jón Geir – 4.500
  • Snæbjörn – 0
  • Þráinn – X

Þetta er ekki einu sinni spennandi lengur.

101013 – Genf

Hvað sá ég af Genf? Ég sá bílaplan, eina á sem rann þétt við þetta bílaplan, háhýsin hinum megin við ána og tónleikastaðinn. Og ekkert meira. Genf er ekki heillandi borg svona fljótt á litið. Gæti verið byggt á ónógum upplýsingum.

Eftir giggið í gær braust út smávegis fyllerí sem fékk stórkostlegt framhald. Mössö og Sami, okkar mestu mátar af Finntroll-genginu, fengu þá hugmynd að keyra með okkur í Stormtrúppernum til Genf. Þetta voru ekki nema tæplega þrír tímar, Robert ekkert nema til í það og því varð þetta raunin. Og það var glatt á hjalla. Við sátum og drukkum það sem til var, spiluðum misgóða tónlist og styrktum tryggðaböndin enn frekar. Hápunkti var náð þegar rútan var orðin algerlega áfengislaus, fyrir utan íslenskan Brennivínspela sem Stijn hafði fært okkur í Belgíu, hvenær sem við vorum nú þar. Enginn hafði sérstaka lyst á kúmeninu þar til Mössö fékk þá bestu hugmynd sem nokkur fékk þessa nóttina.

DSCF6797Lesendur muna mögulega eftir Tesco-verslunarferðinni í Prag fyrir dágóðu síðan. Þar hafði Baldur keypt eitt af því sem honum líkar best: Súrar gúrkur. Og hann keypti ekki litlu krukkuna heldur þá stóru. Risa-fokking-stóru. Í miðju rútupartýinu fékk hann svo þá hugmynd að nú væri tíminn til að klára það sem eftir var í krukkunni, bjóða gestunum okkar upp á, og borða svo mest sjálfur. Það var fín hugmynd, en sem fyrr segir ekki besta hugmynd næturinnar. Víða um veröld (en þó ekki endilega á Íslandi) tíðkast sú aðgerð við neyslu sterkra, áfengra drykkja að brúka það sem kallast á alheimstungumálinu „chaser“. Fólk situr þá með áfengið annars vegar, og óáfengan drykk hins vegar, mögulega gos, djús eða hvað sem hugurinn girnist, og drekkur á vís. Þannig fær maður sér sopa af áfenginu, kyngir, og skolar svo óhroðanum niður með hinu. Og þetta lagði Mössö til, Brennivínið var augljóslega fyrra skotið, en safinn af súru gúrkunum skyldi brúkaður sem eltari. Þetta var svo bara hreint ekki eins vont og við mátti búast og kláruðum við áttmenningarnir úr pelanum með þessu móti. Og það stóð á endum, Robert fann okkur vegasjoppu sem seldi léttvín, sem við keyptum í stórum stíl og gátum haldið áfram. Þetta kvöld er eitt af mínum uppáhalds á túrnum, svo mikið er víst. Að auki bættu tveir í flöskurnar sínar, Gunni skilaði sannfærandi 400 ml. og Jón Geir 450. Þegar tæp vika er eftir er staðan þá svona og ekkert virðist geta komið í veg fyrir afgerandi sigur Jóns:

  • Baldur – 1.700
  • Björgvin – 2.100
  • Gunnar – 2.700
  • Jón Geir – 4.050
  • Snæbjörn – 0
  • Þráinn – X

Flestir voru orðnir mjög framlágir þegar á leiðarenda kom en þetta mun vera eina rútuferðin sem ég hef náð að vaka til enda. Enda ein af þeim allra stystu. Ég og Sami héldum þó lítið einkapartý á planinu sem einn og einn úr hinni rútunni krassaði. Og svo fórum við að sofa.

DSCF6473Ég svaf til sirka tvö og þá höfðu einhverjir af Skálmöldinni freistað þess að rölta eftir kaffi. Það tókst ekki þrátt fyrir að þeir næðu að finna í það minnsta þrjú kaffihús. Afgreiðslufólkið var dónar, sagði að nú væri hádegi og aðeins hægt að taka á móti fólki sem hefði verið búið að panta borð fyrirfram. Umhverfið var víst litað af jakkafötum og drögtum og skítugir og loðnir menn í hettupeysum litnir hornauga. Þeir héldu svo nokkrir út í sömu hugleiðingum seinnipartinn og tókst þá að finna kaffi, en mættu einhverju sem á góðri íslensku mynd kallast yfirlæti og drullusokksháttur og voru látnir sitja úti með hundunum. Sennilega gott að ég var ekki með þarna, ég hefði hrækt á einhvern. Ég á erfitt með samfélög sem líta niður á ákveðna hópa og mig langar ekkert að koma aftur til Genf. Sviss er skrýtið land, og frekar fráhrindandi en hitt.

Mössö er fyrir talsvert löngu búinn að bóka flug fyrir sig og kærustuna til Íslands í apríl til þess að heimsækja okkur. Sami hefur verið að gæla við það sama en í dag fengum við óvæntan liðsauka þegar Mikko hljóðtröll bókaði flug á sama tíma fyrir sig og sína ektakonu. Ef Sami bókar svo fyrir sig og sína eigum við von á 6 ferðalöngum í apríl og það gleður. Það gleður svo óskaplega.

Sándtékk var með fyrra fallinu og giggið með seinna svo ég sá mér leik á borði og skipti um alla mína bassastrengi. Að auki fékk ég Arjan gítartekk til að skrúfa aðeins og fínstilla Gaffalinn (aðalbassann minn) sem hélt þó áfram að vera með einhver leiðindi. Ætli ég noti ekki Hergil (varabassann) það sem eftir lifir túrs og komi svo öllu dótinu mínu í gjörgæslu þegar ég kem heim. Gott að hafa græjugúrúa til taks, fólk sem maður treystir fyrir börnunum sínum. Að því sögðu er Arjan stórkostlega ágætur maður og starfi sínu vaxinn. Og hjálplegur í meira lagi.

Samu stóð aftur við mixerinn í dag þegar við spiluðum og ætlar staðfastlega að gera það það sem eftir lifir túrs. Af afspurn gerði hann gott mót á ný og þetta fyrirkomulag líkar mér vel, maðurinn snillingur og virkilega heiður að hann skuli sjá af tíma sínum í þetta. Giggið var eftir því ágætt, svolítið brokkgengt varðandi græjur reyndar þar sem Böbbi sleit streng, eitt batterý dó á ögurstundu og þar fram eftir, en við gerðum vel frammi fyrir skemmtilega mörgum. Eftir gigg hittum við slatta af Íslendingum og fólki sem við þekkjum héðan og þaðan. Gott kvöld, stórgott alveg.

DSCF6565Núna er klukkan 4.44 og ég er einn á fótum, fyrir utan Robert sem situr við hlið mér og keyrir. Við erum búnir að horfa á Total Recall, en Baldur og Böbbi voru reyndar farnir í koju áður. Keyrsla næturinnar er rétt undir 500 kílómetrum og við erum sirka hálfnaðir. Nú ætla ég að loka tölvunni og gera það upp við mig hvort ég vippa mér í koju eða opna eina rauðvínsflösku enn.

091013 – Lyon

Klukkan er 22.50 og þar sem ég sit í rútunni heyri ég að Finntroll eru að byrja á síðasta laginu. Hér var kjaftfullt hús, á að giska 600 manns, og uppselt.

Ég veit ekki nákvæmlega hverju er um að kenna en ég þarf að sofa meira núna en ég þurfti í upphafi túrs. Þannig hefur það verið undanfarna daga, ég leggst út af í kojuna í því ástandi sem ég er þá og þegar, venjulega milli 12 og 6, og sef svo þar til rútan lendir í nýrri borg. Ég öfunda örlítið þá sem vakna fyrr, þeir sitja hér frammi í Stormtrúppernum og horfa á landslag og framandi borgir, við hinir liggjum í koju og söfnum orku. Ætli þetta hafi ekki eitthvað með ferðaþreytu að gera, en ofan á það DSCF6931hef ég verið að berjast við kvef og hósta og þetta ástand er orðið leiðinlega þrálátt. Ofan á allt fékk ég stórkostlegan höfuðverk í gær sem ég „læknaði“ með tveimur Treo í vatn og átti eftir það ágætan nætursvefn. Reyndar lá ég lengi í koju í gær áður en ég sofnaði og las, kláraði uppvakningateiknimyndasögurnar og húkti eftir það undir vegg á tónleikastað gærdagsins hvar ég sniffaði internet og hlóð niður meira stöffi til að lesa. Sennilega er ég ekki að gera heilsunni neina greiða með líferninu sem eitt og sér gæti útheimt meiri hvíld, en ofan á það finnum við held ég allir fyrir því að dagarnir eru orðnir svolítið hversdagslegir. Það gerir manni erfiðara fyrir þegar kemur að hressleika. En að þessu öllu sögðu er ennþá óskaplega gaman.

Ég vaknaði sem sagt eftir hádegi og þá vorum við fyrir utan tónleikastaðinn hér í Lyon. Það hefur komið mér örlítið á óvart hversu vel Frakkarnir standa sig, aðbúnaður hefur almennt verið góður, góðir tónleikastaðir og bakherbergi, hreinlætisaðstaða betri en víða annars staðar og fólkið ágætt. Maturinn er þó svona upp og ofan. Eftir hið reglubundna morgunpiss héldum við í svolitla gönguferð, og að þessu sinni var það ég sem var drifkrafturinn. Gunni varð reyndar eftir og pakkaði barnafötum og skipulagði, eftirvinnsla óskaplegra verslunarferða í Bretlandi, en við hinir fimm héldum af stað í slagtogi við Robert og Mössö. Við röltum þónokkuð langt og fundum ekkert, vorum eins og svo oft áður langt frá miðbænum og því fátt um fína. Eftir að hafa fundið lokaðan veitingastað og heimamann sem tjáði okkur að hér nálægt væri ekkert að finna sem vert væri að staldra við röltum við til baka og enduðum á veitingastað sem er sambyggður tónleikastaðnum. Þar fengum við Baldur okkur hamborgara, sem reyndist heillaráð því maturinn á tónleikastaðnum átti eftir að valda öllum vonbrigðum. Og eftir það héldum við til sándtékks.

Samuel, eða Samu eins og hann er almennt kallaður, er trommuleikari Finntroll. Hann er maður með vægast sagt svartan húmor, óskaplega finnskur í alla staði, og fullkominn meistarasnillingur. Hann hefur heilmikið með tónlist Finntroll að gera og hefur reyndar unnið stúdíóvinnu fyrir aðrar hljómsveitir, til að mynda Ensiferum sem er mjög stórt nafn í heiðingjametalsgeiranum. Hann kom að máli við okkur í gær og lýsti yfir áhuga á því að gegna starfi hljóðmanns fyrir okkur við tækifæri, eitthvað sem hann hefur ekki gert áður nema einu sinni á lífsleiðinni, en þar sem hann er traustvekjandi maður tókum við vel í þá hugmynd. Hér hangsa menn ekki með hlutina og því var hann mættur við mixerborðið í dag, reyndar með DSCF6807Mikko, Finntroll-hljóðmann, sér til halds og traust, og mixaði giggið okkar í dag. Sándtékkið var örlítið lengra en venjulega, ekki vegna vankunnáttu heldur vegna þess að hann vildi gera hlutina vel. Okkur leið vel eftir hljóðprufuna, en heldur síður eftir matinn sem við fengum eftir hana. Að því sögðu leið mér ágætlega því ég var uppfullur af fyrrnefndum hamborgara og Baldur einnig, en sem dæmi um voðalegheit eldhússins er hægt að nefna þá aðgerð sem Gunni stendur nú í; hann gróf upp úr pússi sínu núðludós sem hann kallaði „varabirgðirnar“. Vonandi sveltur enginn, en svo gæti reyndar farið. Nú voru að berast fregnir af eftirtónleikamatnum (sem á að vera daglegur hlutur en er það svo sannarlega ekki og er næstum því alltaf pizza) og þær eru ekki góðar. Við höfum séð þetta áður, tvær pizzur handa stóra bandinu (Finntroll), ein handa litla (Týr) og svo búið. Það þýðir enginn matur handa okkur og það er orðið svolítið þreytandi. Að því sögðu er þar ekki við böndin eða stjórn túrsins að sakast, þetta hefur með tónleikahalda hverrar borgar að gera og svo virðist vera sem þar sé miklu oftar en ekki pottur brotinn. Auðvitað upplifir maður þetta sem ákveðna vanvirðingu, en svona er þetta víst. Pant vera mjög frægur á næsta túr.

Og svo á svið. Finntroll-mönnum þótti þetta greinilega merkilegur viðburður og stóðu því sennilega allir í salnum meðan við spiluðum. Mikko var hvergi sjáanlegur en Samu hélt um takkana og gerði það af afspurn betur en vel. Við spiluðum fyrir þónokkuð marga, reyndar fáa í byrjun en fleiri eftir því sem leið og. Skýringin var sú, sennilega í fimmta skiptið á túrnum (og er nú orðið meira en svekkjandi) að tónleikarnir voru auglýstir seinna en prógramið sagði til um. Við byrjuðum sem sagt hálfátta á meðan plaköt sögðu átta og aftur hefur þetta með lókal-prómóterana að gera.

Samu kom svo að máli við okkur eftir gigg og hafði fundist gaman. Svo gaman að hann bauðst til að sjá um hljóðmálin fyrir okkur það sem eftir lifir túrs, og við játuðum því fagnandi og hávært. Að því sögðu hefur Mikko sóst eftir því að fá að taka eitt gigg, sem gæti orðið í Barcelona þar sem Týr verða fjarri góð gamni þá og eiga bókað slott á einhverju festivalinu. Þetta er skemmtilegt allt saman og hreinlega heiður.

Finntroll eru búnir og nú rótum við í kerru. Framundan er stutt keyrsla til Genfar, ekki nema 140 kílómetrar, en mér skildist að Robert ætlaði að fylgja stóru rútunni sem leggur af stað um hálf2. Ég er að hugsa um að vaka, finna eins og eina vegasjoppu og kaupa mér viskíflösku, og horfa loksins á Total Recall. En nú er mér ekki til setunnar boðið, klukkan er 23.22 og tími fyrir rót.

081013 – Strasbourg

Við áttum frí í gær og ég blogga ekki á frídögum. En við fundum okkur nóg að gera. Við vöknuðum bara um miðjan dag og þá stóð Trúpperinn fyrir utan venjúið sem við spiluðum svo loksins á í kvöld. Eftir að hafa aðeins teygt úr okkur og svona allskonar héldum við í bæjarrölt, við sex og Robert. Og við gerðum góða ferð. Mikið óskaplega er Strasbourg falleg borg. Fyrst DSCF6409gerðum við svona túristastöff, röltum um og skoðuðum lítil og krúttleg hús, borðuðum á ágætum veitingastað og skoðuðum dómkirkjuna hér í bæ. Hér er skemmtilegur kúltúr og svo virðist sem franska lífið mæti því þýska og miðevrópska í einhverjum mögnuðum kokteil. Hér eru ostar og kjöt, pylsur og ólívur, reiðhjól og skökk hús. Mögnuð blanda og mér fannst ég hafa komið þarna oft í einhverjum tölvuleiknum.

Eftir alla menninguna settumst við inn á gúrmeibjórpöbb sátum þar lengi vel og drukkum ótrúlega marga bjóra af skemmtilegum gerðum. Og svo drukkum við fleiri og ég held að ég hafi fundið nýja uppáhaldsbjórinn minn, IPA Magma af gerðinni Troubadour. Flestir okkar stukku síðan yfir á ítalskan veitingastað og lúðruðu í sig pizzum, en ekki ég og Robert. Við drukkum fleiri bjóra. Og svo komu strákarnir og hjálpuðu okkur að halda áfram. Þegar við svo röltum til baka var klukkan komin DSCF6791svolítið yfir miðnætti og við búnir að halda okkur að verki í þónokkuð marga tíma. Og enginn okkar labbaði beint. Ég man ekki þetta rölt í neinum smáatriðum en í það minnsta komum við að ljómandi háum steinvegg sem sterku strákarnir, Baldur og Robert, töldu réttast að klifra upp á og yfir. Þeir lentu síðan í talsverðu klandri við að komast til baka en það tókst á endanum og við röltum upp að venjúi. Þar var annað partý sem við stækkuðum með glöðu geðið og það er auðvelt að segja að við höfum tekið þetta alla leið. Ég tórði lengur en margir en alls ekki lengst og reyndar man ég ekkert hvernig eða hvenær ég kom mér í koju. En þar vaknaði ég í dag, talsvert hressari en ég átti skilið.

Þessi dagur var svo jafntíðindalítill og ætla mátti, ástandið á flestum alls ekki gott og enginn í stuði. Þessi tónleikastaður er reyndar í stíl við borgina, stórglæsilegur og magnaður í alla staði. Hér fengum við nóg að borða, góðan mat sem skildi örlítið eftir sig. Sándtékk fór ágætlega fram, eina konan sem hefur mixað okkur gerði það í dag og af stakri röggsemi. Það gekk allt sinn vanagang að því undanskildu að bassinn skilaði óþurftarsuði út í kerfið. Eftir að hafa prófað og græjað og gert náði ég að einangra vandamálið við bassann sjálfan. Ég spilaði sem sagt með varabassann minn í fyrsta skiptið á túrnum, sem kemur alls ekki að sök því hann er síst verri. Nú er bara að vona að þetta hafi verið tilfallandi draugur hjá mér, ég nenni ekki að standa í einhverjum hljóðfæraviðgerðum. Kemur í ljós á morgun.

DSCF6441Svo voru tónleikar. Alveg óskaplega ágætir en breyttu þó engan veginn lífi mínu. Við náðum að hrista duglega af okkur slenið og gerðum vel, sviðið stórt og fólksfjöldi og þetta var bara í alla staði alveg ágætt. Í fyrsta, og að ég held eina, skiptið á túrnum spiluðu fleiri bönd en Skálmöld, Týr og Finntroll, tvö lókalbönd fylltu skörðin á milli. Þau spiluðu þó ekki á stóra sviðinu heldur í litlum hliðarsal og þetta breytti í raun ekki miklu. Finnstroll eru byrjaðir á sínu þegar þetta er skrifað klukkan 22.51 Við erum rólegir, sitjum fimm í baksviðsherberginu en Þrábi er horfinn. Ætli það sé ekki æsispennandi NBA-leikur frá 1990 sem hann má ekki missa af í tölvunni.

Á morgun spilum við í Lyon og þangað eru 495 kílómetrar. Robert er búinn að finna það út úr kortunum að keyrslan þessa síðustu daga verður löng, hvern einn og einasta dag, og sennilega hálffáránleg fyrir síðasta legginn. Þar mæðir á honum, ekki okkur, en þó verður að segjast að þetta er farið að taka í núna þegar vika er eftir.

Á eftir klára ég svo The Walking Dead myndasöguseríuna, það sem komið er út í það minnsta. 18 bækur af ágætiskaliberi, svolítil sápa reyndar þegar á líður, en alveg ágætis stöff. Og svo ætla ég að sofa.DSCF6803

061013 – Lille

Við spiluðum í Lille fyrir tveimur árum og þá var gaman. Við bjuggumst þessvegna við góðum degi í dag en fljótlega kom bakslag. Svo virtist sem tónleikarnir hefðu verið auglýstir sem tveggja banda konsert, Týr og Finntroll prýddu lókal-plakötin, en hvergi minnst á Skálmöld. Þar að auki gátum við ekki séð betur en herlegheitin hefðu verið auglýst klukkan 19.15 en við vorum settir á svið klukkan hálf7. Það kom okkur því stórkostlega skemmtilega á óvart að sjá röð fólks teygja sig niður götuna að tónleikastaðnum og ná fyrir horn á næstu gatnamótum. Við höfum sennilega spilað eitt fjölmennasta giggið okkar í dag.

Umboðsmaðurinn okkar, hann Stijn, mætti á giggið og hljóðblandaði. Það voru hæg handtök enda höfum við unnið gríðarlega mikið með honum áður. Að auki var þetta stórgóður salur, sviðið alveg risastórt og allt eins og best er á kosið og við þess vegna glaðir. Þetta skilaði sér síðan á tónleikunum sem voru alveg magnaðir, troðfullt hús, hörkupyttur og bullandi hiti. Ótrúlega skemmtilegir tónleikar í ótrúlega skemmtilegu húsi og hingað verðum við að koma aftur. Að auki var maturinn alveg ljómandi ágætur, fólkið fallegt og kurteist og allt eitthvað svo ágætt. En auðvitað svolítið franskt.

DSCF6549Ég sá framhliðina á tónleikastaðnum í dag og fór þá að velta vöngum. Það hefur gerst gríðarlega oft á túrnum að maður sjái ekkert annað en tónleikastaðinn að innan, eftir að maður hefur gengið inn að aftan. Nú þegar liðinn er mánuður af túrnum verð ég að viðurkenna að þetta rennur svolítið saman. Það er víst ekki hægt að segja með góðri samvisku að maður hafi verið að ferðast þegar maður gerir raun ekki annað en standa á nýju sviði í nýjum sal dag eftir dag. Túrisminn verður víst að bíða og fer ekki vel saman við rokklífið.

Það er smá kátína í mönnum enda þótt ég sé rólegur. Gunni er kominn í kojuna fyrir aftan mig en hinir eru í bílastæðispartýi. Af hljóðunum að dæma er Þrábi búinn með mest, því hingað berst mér sveitamannahlátur af bestu sort. Klukkan er 0.30 og brottför er að ég held klukkan eitt. Þá þurfum við að keyra í 550 kílómetra til Strassburg og Robert reiknaði með 7-8 tímum í það. En við spilum hinsvegar ekki í Strassburg á morgun. Nei, það er frí á morgun, seinni frídagurinn á túrnum. Sá fyrri, sem var fyrir á að giska þremur vikur síðan, var þó ekki eiginlegur frídagur því þá þurfum við að keyra óhemjuvegalengd. Morgundagurinn verður hins vegar væntanlega bara frí, við vöknum í kyrrstöðu og eigum þá daginn fyrir okkur. Ég veit bara ekki hvernig ég á að snúa mér í þessu. Strassburg þykir víst ljómandi fallegt pláss, við eigum að vera þokkalega miðsvæðis og því ekki ólíklegt að dagurinn verði skemmtilegur.

Ætli Robert fari ekki að vakna, mér heyrðist þetta vera klukkan hans að hringja. Það er spurning hvort maður dembi sér í að horfa á This is Spinal Tap eða Total Recall, komi kannski við í vegasjoppu og kaupi eins og eina rauðvín. Það er jú frí á morgun og um að gera að gera vel við sig.

DSCF6244Og ein hugleiðing að lokum: Ísland er konungur baðherbergjanna, það segi ég og skrifa. Það sem ég hlakka til að koma inn á klósett sem er ekki angandi af klóaki og mannaskít, setjast á klósettskál sem er ekki með þessum óskiljanlega stalli eða jafnvel ekki nema gat í gólfinu, geta sturtað niður þegar maður er búinn, fara í sturtu sem heldur hitastillingu en frystir mann ekki og skaðbrennir til skiptis, stíga undir bunu sem fellur á mann allan af þunga, ekki undir þessa örfáu dropa sem sullast á mann eins og hundaslef, geta hengt sturtuhausinn upp og horfa á svelginn taka við affallinu jafnóðum. Og hverjum dettur í hug að hafa einn kaldan krana og einn heitan í handlauginni? Og hálfan metra á milli! Ég er ekki þrifalegur maður en óskaplega sem þetta spilar stóra rullu, það finnur maður þegar hlutirnir eru ekki í lagi. Og að drekka vatnið úr krananum, þess sakna ég mest af öllu.

Frídagur og svo ekki nema sjö dagar eftir. Það er ótrúlegt.

051013 – London

Ég var of fullur til að blogga í gær, þess vegna geri ég það bara núna. Við vöknuðum á hosteli með konunum okkar, Þrábi og Gunni reyndar hvor með hinum. Um hádegið tókum við lestina örfáar stöðvar og stigum út úr henni örfá skref frá tónleikastaðnum. Þar fundum við okkur ágæta knæpu, „The Famous Cock“ og drukkum þar, átum og horfðum á kappleiki í sjónvarpinu langleiðina fram að sándtékki. Það gekk allt svo ljómandi vel og gríðarleg rútína komin á hlutina. Við spiluðum svo frábæra tónleika á frábærum stað fyrir stappfullan sal af frábæru fólki sem tók okkur einstaklega vel. Í viðbót við stelpurnar fengum við svo þónokkuð marga góða gesti, fyrir mitt leyti þarf ég helst að nefna Helgu systur okkar Baldurs sem er nýflutt út til náms. Svo hittum við Valgeir, Böbbabróður sem er jafnaldri okkar og mikill höfuðsnillingur. Hann hefur búið hér í sex ár. Við gátum mikið spjallað og drukkið enda vanir menn. Og það gerðum við.

DSCF6128Stelpurnar komu með allskonar skemmtilegheit að heiman, meðal annars hákarl og Brennivín fyrir Robert, eitthvað sem hann hafði óskað eftir. Hann borðaði af lyst, ekki alveg bestu, en þokkalegri lyst. Hann lýsti því reyndar yfir að honum þætti hákarlinn í senn ógeðslega vondur og sérlega ágætur og af einhverjum ástæðum gat hann ekki hætt að borða. Kapanen fékk líka gjafir, við færðum honum tvo Skálmaldarboli og hettupeysu í stærð fyrir fullorðinn karlmann.

The Famous Cock varð miðstöðin okkar eftir tónleikana og þar gerðu flestir þessu ágæt skil. Og eftir að okkur var hent út þaðan voru allir komnir í stuð fyrir partý sem fór að mestu fram við rúturnar fram að brottför. Þegar partýið náði hámarki var blöðrunum hans Þrába sleppt út í heiðhvolfið og nú er miklu meira pláss í rútunni. En ekki alveg jafn gaman samt. Við héldum svo af stað um tvöleytið, kysstum fólkið okkar bless og skriðum í koju. Flestir. Alls ekki allir. Ég svaf þetta allt saman af mér en hér var víst lágmarkssamsæti, Gunni skilaði af sér 750 ml. og Böbbi 700. Þá er þetta staðan:

  • Baldur – 1.700
  • Björgvin – 2.100
  • Gunnar – 2.300
  • Jón Geir – 3.600
  • Snæbjörn – 0
  • Þráinn – X

Þetta er nú sennilega mesta fylleríið á túrnum hingað til. Tilfellið er að enda þótt flaskan sé oftast mjög skammt undan þá eru þetta ekki alveg eins villtar aðstæður og margir gætu haldið. Auðvitað er það hverjum og einum í sjálfsvald sett hversu stíft hann drekkur, en hávaðafyllerí er langt frá því að vera daglegur hlutur. Við erum engir englar, það veit hamingjan, en við erum heldur ekki fávitar. Og þeir sem drekka mikið eru heldur ekki fávitar. Það eru menn hér á túrnum sem komast varla fram úr koju fyrr en þeir klára eins og eina vodkaflösku en þessir menn eru aldrei með vesen eða róstur. Þungarokkarinn er nefnilega frekar siðuð skepna.

DSCF6306Við vorum svo rifnir upp á rassgatinu í Dover til að taka ferjuna. Flestir fundu fyrir aðgerðunum nokkrum stundum áður og Böbbi náði nú sennilega að fanga stemninguna einna best:

–       Ónei.

Þetta var það eina sem hann gat sagt. Enski morgunverðurinn bjargaði ekki nógu miklu og við vorum allir voðalegir og framlágir þegar við snertum franska grund. Og þá fór ég í koju og var þar þar til við lögðum upp að tónleikastaðnum í Frakklandi. En það er efni í nýja færslu.

041013 – Bilston

Ferjan lagði sig svo bara að landi í Wales um hádegið og Stormtrúpperinn rauk í gang. Það var ekki alveg borðliggjandi því hann er aftur farinn að hósta líkt og hann gerði í upphafi ferðar. Það stóð tæpt þegar við ræstum hann í morgun til að keyra inn í ferjuna og ef hann hefði gefið upp öndina þarna á bíladekkinu hefðum við verið í leiðinlegum málum. En þetta gekk nú allt vel. Ég lagðist í koju og las þar til ég sofnaði og svaf til fjögur, þegar við stoppuðum í Bilston. Í gegnum svefninn man ég eitthvað eftir umræðunni um afmælisblöðrurnar hans Þrása sem dansa enn um Stormtrúpperinn og gera nákvæmlega ekkert nema að vera fyrir. Og vera pínu fyndnar kannski. Mig grunar að einhver eigi eftir að skilja dyrnar á bílnum „óvart“ eftir opnar og þær verði þannig horfnar einn daginn. Það er prýði yfir þessu, og klassi finnst mér.

Robert tók víst til í bílnum í gær. Hann var nývaknaður þegar hann tjáði okkur að nú væru þrír hlutir bannaðir í bílnum:

  1. Saltstangir
  2. Sokkar
  3. Smápeningar

DSCF6089Þetta var sum sé það helsta sem hann fann á gólfinu, í hæfilega ógeðslegri blöndu. Við lofuðum betrun, og sennlega getum við nú sleppt einhverju af þessu. Sokkunum til dæmis.

Við Böbbi veittum svo eitt viðtal í dag, þar var komin stelpa sem hefur fylgt okkur heilmikið eftir og spurði allskonar spurninga. Það að auki hafði hún bakað köku með áletruninni „SKÁLMÖLD“. Það var fallega gert, og kakan einstaklega ólystug. Sándtékk Týs-liða gekk illa, og reyndar hefur það brunnið við á túrnum að þeir taki sér langan tíma til að gera sig klára. Þeir eru tæknilega frekar flóknir, eru að prófa sig áfram með fullt af nýjum tækjum og í dag gekk allt á afturfótunum. Við fengum því óvenju stuttan tíma í þetta skiptið og slógumst þar við opnunartíma staðarins. Hljóðmaðurinn var hinsvegar meððetta, gamall sandur sem vissi alveg hvernig hlutir virka, vann þetta frekar örugglega en hratt og danglaði reglulega þéttingsfast í mixerinn sinn þegar hann vildi ekki hlýða. Og það virkaði. Vinalegur maður og starfi sínu vaxinn, tók þetta verkefni og leysti með bravúr. Það væri nú gaman ef allir hefðu þetta viðmót. Já bara í lífinu.

Giggið var skemmtilegt og við höfum sennilega ekki spilað betur hingað til á túrnum. Krádið var vinveitt, ekkert sérstaklega aktíft en svo sannarlega með okkur í liði. Við vorum glaðir, aðstæður góðar og einhvern veginn small þetta bara. Það er gaman þegar þetta smellur bara, og við bara hljótum að hafa náð að veiða einhverja á okkar band eftir þetta stórgóða kvöld.

Eftir tónleika tók svo við svolítið kapp við tímann. Við pökkuðum á mettíma og hlóðum kerruna góðu. Eftir það skiptu allir um föt og höfðu til sitt hafurtask, flestir höfðum við pakkað því nauðsynlegasta til einnar nætur og þvínæst tókum við leigubílinn sem góða konan sem eldaði einmitt handa okkur í dag hafði forpantað fyrir okkur. Þessi bíll keyrði okkur á lestarstöðina í Wolferhampton þar sem við áttum pantaða lestarferð til London. Í þessari lest sit ég núna og klukkan orðin 22.42. Áætluð lending í Lundúnaborg er laust eftir miðnætti og þar bíða okkar fjórar konur, sem er því miður minna en ein á mann. Þráinn og Gunnar taka að sér það súra verkefni að deila herbergi, við hinir horfum fram á næturstund í rúmi með viðhengjunum okkar. Robert varð eftir í Bilston og keyrir Trúpperinn í rólegheitum á morgun. Hann var kominn í bjórinn áðan og létt yfir honum, og við hittum hann svo aftur seinnipartinn á morgun við tónleikastaðinn.

DSCF6094Ég nenni nú sennilega ekki að blogga mikið meira. Jón situr gegnt mér með rauðvínsflöskur sem hann var að kaupa. Ég ætla að drekka meira frá honum. Þráinn var að vinka svörtu barni og Böbbi er að tromma á borðið sitt, meira af óþreyju en af gleði. Gunni er fullur og á það skilið, Baldur er að hlaða símann sinn. Nú eru tíu dagar eftir, við erum ennþá brosandi og til í lífið, til í tónleika morgundagsins og til í að leggja enn meira á okkur fyrir Skálmöld. Sex menn sem ákváðu að prófa að spila þungarokk í skólastofu í Norðlingaskóla fyrir fjórum árum, svona rétt til að sjá hvort við næðum ekki að hafa ofan af fyrir okkur. Hvar endar þetta?